top of page

Mánamáttur

{ Icelandic post }


💜

Hvernig líður ykkur undir dvínandi skini mánans?

Við erum að flæða inn í það tungltímabil sem á ensku kallast ,the balsamic phase of the moon’ ~ sem eru allra síðustu dagar tunglhringsins þegar ræturnar okkar nærast í dýpinu. Ahhh, það sem ég elska þessa daga!


Örfín minnkandi mánasigð á himni minnir okkur á að nú sé kominn tími á hvíld, rétt eins og þegar kvölda tekur, og höfgi, og að lokum heilandi svefn, færist yfir. Nú er verið að bjóða okkur umvefjandi faðm myrka tunglsins, en þetta er sá tími mánaðarins sem er mest græðandi fyrir okkur, bæði fyrir líkama og sál.


Ef við þiggjum boðið og tengjum okkur meðvitað við orku og ryþma tunglsins umbreytast þessir síðustu dagar tunglhringsins í eins konar græðismyrsl, eða kröftugan sálarsalva sem bæði hreinsar og heilar, linar þrautir, græðir og nærir. Hugsa sér!




Á myrku tungli sjáum við svo vel innri áttavitann okkar, og við eigum auðveldara með að gefa eftir, sleppa og fyrirgefa, svo það æðsta besta geti átt sér stað í lífinu okkar.

Þetta er því ótrúlega máttugur tími til þess að ferðast inn á við og spyrja sig djúpra spurninga eins og:


  • Hvaða ástand eða aðstæður í lífi mínu eru ekki lengur ásættanlegar, viðeigandi eða lífgefandi?

  • Hvaða samböndum þarf ég að hlúa að? Er eitthvað samband sem ég þarf virkilega að laga, eða hreinlega að enda?

  • Hvaða viðhorf, vanar eða hegðun er að koma í veg fyrir að ég vaxi andlega?

  • Hverju þarf ég að sleppa?


····~<<✥✧✥>>~····


Í nútímasamfélagi er því miður lögð ofuráhersla á gjörðir og vöxt, svo margir verða af þeirri gjöf sem þessi máttartími býður upp á þegar orkan fer dvínandi, og einhvers konar endir er í aðsigi. Þetta er mikill viskutími og í raun tími leiðtogans, því hvíld og endurnæring, heilun, það að stilla sig af og ferðast inn á við, inn í dýptina, að rótunum okkar er það sem við þurfum til þess að geta tekið góðar ákvarðanir og verið til staðar í heiðarleika og einlægni þegar er vöxtur og uppgangur. Með því að tengja við og fylgja náttúrulegum ryþma sólar, jarðar og mána, innöndun og útöndun, gefum við ávallt af okkur þegar brunnur okkar er fullur, og göngum ekki á orkubirgðir okkar. Þetta er einfaldasta og máttugasta leiðin til þess að lifa í gleði og þrótti.


💜 Ég óska þér vellíðunar á öllum sviðum lífs þíns

Comments


bottom of page